Innlent

Sigmundur Davíð: "Það liggur á að klára þessi mál“

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Ráðherraskipan Framsóknarflokksins var samþykkt einróma á þingflokksfundi nú í kvöld. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, verðandi forsætisráðherra, sagði eftir fundinn að það að lægi á að ráðast í leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum.

Sigmundur Davíð sagði hins vegar að vegna tengingar fjármögnunar á niðurfellingunni við uppgjör þrotabúa föllnu bankanna væri ekki hægt að útlista tímaáætlun um hvenær ráðist yrði í verkefnið, en sem forsætisráðherra mun Sigmundur Davíð fara fyrir sérstakri ráðherranefnd um þetta samkvæmt stjórnarsáttmála.

„Það liggur á að klára þessi mál og þar af leiðandi hljótum við að nýta sumarið til þess að klára málin að því marki sem hægt er á meðan uppgjörinu (á þrotabúum föllnu bankanna innsk.blm) er ekki lokið, en verandi jafnframt með tilbúna áætlun út frá þeirri leið sem nefnd er í stjórnarsáttmálanum sem millibilsleið, þessari sjóðsleið, ef að menn horfa fram á að hitt tefjist óhóflega,“ sagði forsætisráðherraefnið. 

Ríkissjóður kæmi til með að fjármagna þennan leiðréttingarsjóð, að minnsta kosti í fyrstu?

„Það hafa verið nefndar ólíkar útfærslur. Ein slík útfærsla var mikið til umræðu í kosningabaráttunni frá Hægri Grænum, við höfum skoðað aðrar leiðir, önnur afbrigði. Ríkið er þarna vissulega milliliður en kostnaður lendir ekki á ríkinu á endanum.“

Gert er ráð fyrir stofnun þessa leiðréttingasjóðs í stjórnarsáttmálanum, en þar er honum lýst með svofelldum orðum: „Ríkisstjórnin heldur þeim möguleika opnum að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð til að ná markmiðum sínum.“

Sjá má ítarlegt sjónvarpsviðtal við Sigmund Davíð í myndskeiði hér fyrir ofan, eða með því að smella hér. Þar fer Sigmundur Davíð yfir verkefni sumarþings, sérstaka veiðigjaldið sem ríkisstjórnarflokkarnir vilja breyta og ýmislegt fleira.

Ráðherrar Framsóknar við Austurvöll í kvöld: Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.Mynd/ÞÞ

Tengdar fréttir

Færri ráðherrar Framsóknar

Sjálfstæðisflokkurinn fær fimm ráðherra og Framsóknarflokkurinn fjóra í nýrri ríkisstjórn. Ekki verður skipaður sérstakur umhverfisráðherra. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verður forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.

„Mörg orð án mikils efnis“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir lítið um handfastar aðgerðir í stjórnarsáttmála Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×