Erlent

Fann fjölskyldu sína aftur

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Taj Bibi faðmar sonarson sinn að sér, sex árum eftir að hann villtist að heiman.
Taj Bibi faðmar sonarson sinn að sér, sex árum eftir að hann villtist að heiman. fréttablaðið/AP
Fyrir rúmlega sex árum villtist níu ára gamall drengur að heiman í borginni Rawalpindi í Pakistan. Lögreglan fann hann og sendi á heimili fyrir týnd börn í Lahore. Nú, þegar drengurinn er orðinn fimmtán ára, komst hann loksins til ættingja sinna í Rawalpindi aftur. Amman grét innilega þegar hún faðmaði Zeeshan Ali að sér eftir allan þennan tíma.

Hún sagðist aldrei hafa gefið upp vonina: „Við leituðum alls staðar að honum. Ég huggaði son minn og sagði honum að sonarsonur minn myndi koma heim einhvern daginn.“

Zeeshan mundi aðeins eftir bílskúr, þar sem frændi hans vann við að gera við vélhjól. Zeeshan mundi þetta vegna þess að hann hafði stundum hjálpað frænda sínum.

Heimilið í Lahore sem lögreglan sendi hann á er rekið af Edhi-stofnuninni, sem er með höfuðstöðvar í Karachi, og þangað fór pilturinn.

Stofnin er þekkt á Indlandi fyrir störf sín við ýmsum líknar- og mannúðarmál. Meðal annars aðstoðar stofnunin börn sem ýmist hafa týnst eða strokið að heiman við að finna heimili sitt og ættingja aftur. Hún hjálpar einnig fíkniefnasjúklingum, heimilislausu fólki og öldruðum, auk barna.

Edhi-stofnunin hefur veitt týndu drengjunum húsaskjól og ekur nú um með fimmtíu pilta í rútu að leita foreldranna.fréttablaðið/AP
50 drengir í rútu

Starfsmenn Edhi hafa undanfarið ekið um landið með fimmtíu drengi í rútu. Meðferðis var hinn fimmtán ára Zeeshan Ali. Ekið er um þær slóðir sem börnin segjast hafa búið á í von um að þau þekki kennileiti og hægt verði að ramba á fjölskylduna. Þetta var einnig gert árið 2008, og þá fundu 48 börn af 55, sem ekið var um, foreldra sína aftur.

Þegar rútan var komin til Rawalpindi og ekið hafði verið þar um götur í töluverðan tíma taldi Zeeshan Ali sig bera kennsl á bílskúrinn þar sem hann hafði hjálpað frænda sínum við vélhjólaviðgerðir. Eigandi verkstæðisins var ekki við en einn starfsmanna fór með drenginn heim til hans í götu ekki langt frá. Eigandinn þekkti Zeeshan Ali aftur, hringdi í frænda hans og þaðan komst hann til fjölskyldunnar.

Pilturinn segir að hann hafi upphaflega reynt að segja lögreglunni þegar hann fannst fyrst að hann ætti heima í Rawalpindi. Lögreglan hafi ekki hlustað heldur sent hann beint til Lahore. Þá var hann orðinn svo hræddur og reiður að hann sagði ekki neitt fyrr en löngu síðar, þegar hann var farinn að treysta starfsmönnum Edhi-samtakanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×