Innlent

Vill útigangsmenn inni í Hörpu vegna skorts á gistiskýlum

VG skrifar
"Ef annað kemur ekki í leitirnar er bent á Tjarnarsal Ráðhússins eða þann hluta Hörpunnar sem ekki er í notkun,“ segir í tillögu Þorleifs Gunnarssonar.
"Ef annað kemur ekki í leitirnar er bent á Tjarnarsal Ráðhússins eða þann hluta Hörpunnar sem ekki er í notkun,“ segir í tillögu Þorleifs Gunnarssonar.

Þorleifur Gunnlaugsson, varaborgarfulltrúi Vinstri grænna, lagði til í Velferðarráði á mánudaginn að Tjarnasalur Ráðhússins eða hluti Hörpunnar sem ekki er í notkun, yrði nýttur undir þann mikla fjölda útigangsmanna sem hefur þurft að vísa frá neyðarskýlum borgarinnar.

Í fundargerð velferðarráðs kemur fram að á fyrstu fjórum mánuðum ársins hafi komið upp 137 tilvik þar sem körlum var vísað frá neyðarskýlum borgarinnar. Þetta er gríðarleg aukning en á síðasta ári var 24 körlum vísað frá allt árið.

„Við svo búið má ekki standa, því um er að ræða lágmarks mannréttindi,“ segir Þorleifur í tillögu sinni sem hann lagði fram í velferðarráði og benti á að samkvæmt áætlunum Velferðarsviðs sé ekki reiknað með nýju gistiskýli fyrr en eftir 6 – 9 mánuði.

Þorleifur Gunnlaugsson, fulltrúi Vinstri grænna í Velferðarráði.

Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna lagði því til að þegar í stað yrði fundið bráðbirgðahúsnæði til að leysa vandann. „Ef annað kemur ekki í leitirnar er bent á Tjarnarsal Ráðhússins eða þann hluta Hörpunnar sem ekki er í notkun,“ segir í tillögunni.

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu hinsvegar fram bókun vegna málsins þar sem fram kemur að fyrir liggi samþykkt velferðarráðs um að fela sviðinu að leita að nýju húsnæði fyrir Gistiskýlið „og er sú vinna í fullum gangi. Hún miðar að því að finna húsnæði sem getur betur tekið við tímabundinni fjölgun líkt og núna ríkir,“ segir í bókun borgarfulltrúanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×