Innlent

Mikill vatnsleki á hjúkrunarheimili, rúm vistmanna umflotin vatni

Slökkviliðið á Akureyri ásamt ýmsum öðrum aðilum, sem hafa verið ræstir út, vinna nú að því að dæla vatni út úr hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð við Vestrusíðu á Akureyri, eftir að sver vatnsleiðsla sprakk þar um klukkan fimm í morgun og kalt vatn tók að flæða um allt.

Þegar slökkviliðsmenn komu á vettvang var fimm sentímetra djúpt vatn á mörg hundruð fermetra gólffleti í einni álmunni, en slökkviliðsmenn náðu strax að skrúfa fyrir vatnsinntakið í húsið.

Vistmenn voru hvattir til að halda kyrru fyrir í rúmum sínum, sem voru umflotin, og héldu þeir ró sinni að sögn varðstjóra í slökkviliðinu.

Allar tiltækar dælur liðsins eru notaðar við dælinguna og það verður ekki fyrr en að henni lokinni, að hægt verður að meta tjónið.

Hjúkrunarheimilið er nýtt og var tekið í notun síðastliðið sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×