Innlent

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar ályktar gegn menntamálaráðuneytinu

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Krefjast endurskoðunar á fjárframlögum til að tryggja skólunum eðlilegan rekstrargrundvöll.
Krefjast endurskoðunar á fjárframlögum til að tryggja skólunum eðlilegan rekstrargrundvöll.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur samþykkt ályktun þar sem skorað er á menntamálaráðuneytið að endurskoða fjárframlög til Flensborgarskólans og Iðnskólans í Hafnarfirði til að tryggja skólunum eðlilegan rekstrargrundvöll.

Í ályktuninni segir: „Krafa um tafarlausa leiðréttingu á rekstrarhalla skólanna er harkaleg þegar horft er til raunverulegrar fjárhagsþarfar þessara tveggja menntastofnana og er víst að ef miðað er við núverandi fjárveitingar til skólanna samhliða kröfu um leiðréttingu rekstrarhalla á svo skömmum tíma sem hér um ræðir, mun það skerða til mikilla muna möguleika ungmenna í Hafnarfirði til að velja sér nám sem þeim hentar. Það ýtir svo enn og aftur undir enn frekara brotthvarf ungmenna úr námi í framhaldsskólum. Uppbygging aukins námsvals og sérhæfingar skólanna, svo sem fjölmiðladeildar Flensborgar undanfarin fimm ár, er þannig að engu höfð.„

Sex bæjarfulltrúar samþykktu ályktunina en fimm sátu hjá.

Mikil umræða hefur verið um fjárveitingar til framhaldsskóla en nemendur Menntaskólans í Reykjavík fylktu liði að menntamálaráðuneytinu á mánudag og afhentu ráðherra undirskriftir þar sem skorað var á hann að leiðrétta skert fjárframlög til skólans.

Þá hélt skólinn neyðarfund með fulltrúum stjórnenda, kennara, nemenda, foreldra og skólanefndar í síðustu viku til að ræða fjárhagsstöðu skólans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×