Erlent

2.000 ára ráðgáta úr Rómaveldi loks leyst

Magnús Þorlákur Lúðvíksson skrifar
Rómverjar notuðu háþróað afbrigði af steypu í byggingar sínar. Eftir fall Rómaveldis var steypa vart notuð í heiminum aftur fyrr en á miðri 18. öld.
Rómverjar notuðu háþróað afbrigði af steypu í byggingar sínar. Eftir fall Rómaveldis var steypa vart notuð í heiminum aftur fyrr en á miðri 18. öld.
Alþjóðlegur hópur vísindamanna hefur loks komist til botns í einni elstu ráðgátu steindafræðinnar; þeirri hvernig Rómverjar fóru að því að reisa hafnarmannvirki sem standa enn traustum fótum eftir tvö þúsund ára veðrun. Uppgötvun vísindamannanna gæti haft áhrif á það hvernig hafnir verða reistar í framtíðinni.

Vísindamennirnir hafa síðasta áratuginn rannsakað ellefu hafnir við Miðjarðarhafið sem þrátt fyrir 2.000 ára ágang sjávar standa enn óhaggaðar. Þessi staðreynd hefur lengi vakið forvitni vísindamanna því hafnir nútímans endast fráleitt svo lengi.

Beindist rannsókn vísindamannanna að samsetningu steypunnar sem Rómverjar notuðu en algengasta afbrigði steypu í nútímanum, svokölluð Portland-steypa, fer að leysast upp eftir 50 ára ágang salts sjávar. Telja vísindamennirnir að þeim hafi loks tekist að greina uppskrift steypunnar, sem reynist hafa ýmsa kosti fram yfir nútímasteypuafbrigði.

Þannig var steypa Rómverja ekki aðeins sterkari en nútímasteypa heldur er framleiðsla hennar umtalsvert umhverfisvænni en nútímaleg steypuframleiðsla, sem losar mikið magn koltvísýrings út í andrúmsloftið.

Var leyndarmál Rómverja það að blanda kalki og gosösku í steypuna sína. Gæti uppgötvunin valdið straumhvörfum í steypuframleiðslu og orðið þess valdandi að verulega dragi úr losun koltvísýrings í greininni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×