Lífið

Vonast til þess að sjá álfa og tröll

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Paul Kalkbrenner hlakkar til að koma á Sónar á Íslandi í febrúar.
Paul Kalkbrenner hlakkar til að koma á Sónar á Íslandi í febrúar. nordicphotos/getty
Þýski raftónlistarmaðurinn Paul Kalkbrenner er einn þeirra listamanna sem koma fram á Sónar-tónlistarhátíðinni í febrúar næstkomandi. Fréttablaðið náði tali af Þjóðverjanum þegar hann hámaði í sig morgunkornið.

„Ég hlakka mikið til þess að koma til Íslands og vona að ég nái að sjá álfa og tröll. Ég hef heyrt að þetta sé mikil hestaþjóð,“ segir Paul Kalkbrenner léttur í lundu. Hann hefur komið fram um allan heim og kom einnig fram á Sónar-hátíðinni í Barcelona síðastliðið sumar. Þá var hann einnig á Sónar-tónleikaferðalagi um Bandaríkin.

Aðspurður hvort hann ætli að gera eitthvað sérstakt á Íslandi segist hann ætla að reyna að fara í Bláa lónið og mögulega skoða aðeins skemmtanalífið. „Konan mín og vinur verða með í för þannig að þau hafa auðvitað sitt að segja um hvað við gerum á Íslandi.“

Kalkbrenner hefur gefið út átta plötur, sex breiðskífur, eina tónleikaplötu og eina „remix“-plötu.

Þessi fyrrverandi trompetleikari er best þekktur fyrir lagið Sky and Sand sem fór sigurför um Evrópu árið 2009 og gaf síðast út plötu árið 2012 og hét hún Guten Tag. „Ég stefni á að gefa út aðra plötu á næsta ári.“

„Ég þekki Björk, Sigur Rós og Ásgeir Sigurvinsson,“ segir Kalkbrenner spurður um hvort hann viti eitthvað um Ísland. „Ég hlakka mikið til að koma og lofa góðu stuði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.