Lífið

Fullbúið danshús í Reykjavík

Dagný Gísla. skrifar
Samtímadans, ballett, jóga, pilates, tangó og danseróbikk er í boði.
Samtímadans, ballett, jóga, pilates, tangó og danseróbikk er í boði. Mynd/Hulda Sif Ásmundsdóttir
Dansverkstæðið var stofnað af danshöfundunum Sveinbjörgu Þórhallsdóttur og Steinunni Ketilsdóttur sem voru að leita að heppilegu húsnæði fyrir vinnu sína. Þær tóku þá á leigu stórt rými við Skúlagötu og nú blómstrar þar sköpun í danslist.

„Mikil gróska hefur verið í dansinum hér á landi síðustu ár en það hefur ekki verið aðstaða fyrir sjálfstætt starfandi danshöfunda til að vinna að nýjum verkum,“ segir Tinna Grétarsdóttir, verkefnastýra Dansverkstæðisins.

Mynd/Hulda Sif Ásmundsdóttir
„Sveinbjörg og Steinunn gerðu sér grein fyrir möguleikum húsnæðisins á Skúlagötu og í samstarfi við Ólöfu Ingólfsdóttur og Karenu Maríu Jónsdóttur, sem voru að vinna skýrslu um danshús á Íslandi, stofnuðu þær félagssamtökin Samtök um danshús, sem sér um rekstur Dansverkstæðisins,“ segir Tinna.

Samtökin hafa það markmið að reka fullbúið danshús í Reykjavík, sem verður öruggt framtíðarheimili danslistarinnar á Íslandi. Dansverkstæðið er duglegt að skipuleggja hina ýmsu viðburði og taka þátt í hátíðum í Reykjavík. Einnig hafa verið haldin hin vinsælu hádegispartí eða „lunch beat“ í þeirra húsum. Rýmið er vel nýtt og boðið er upp á spennandi morguntíma tvisvar í viku, þriðjudaga og fimmtudaga, sem hægt er að kíkja í eftir hentisemi.

„Reynt er að hafa fjölbreytta tíma sem henta dönsurum og dansáhugamönnum, til dæmis samtímadans, ballett, jóga, pilates, tangó og danseróbikk. Tímarnir eru stílaðir á lengra komna en allir eru velkomnir,“ segir Tinna.

Nánari upplýsingar á danceatelier.is

Mynd/Hulda Sif Ásmundsdóttir





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.