Innlent

Sýning á Kjarvalsstöðum: "Hann var besti ljósmyndari og listamaður Sovétríkjanna"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Alexander Rodchenko fæddist í St. Pétursborg árið 1891 og starfaði sem listamaður og hönnuður í Moskvu. Hann notaði marga miðla í sköpun sinni en gerðist brautryðjandi á sviði ljósmyndunar og vildi að fólk liti heiminn nýjum augum í gegnum myndir hans. Sýning frá Ljósmyndasafni Moskvu á verkum þessa merka listamanns var opnuð á Kjarvalsstöðum í dag.

Ragnheiður Pálsdóttir, sem er framleiðandi sýningarinnar, heillaðist sem unglingur af verkum Rodchenkos. „Hann var uppi á miklum umrótatímum í Rússlandi og hann langaði að skapa nýja ásjónu listanna. Hann tók ljósmyndir sem voru mjög byltingarkenndar á þessum tíma og þróaði sitt tungumál í ljósmyndun,“ segir Ragnheiður.

Sergey Burasovsky er fulltrúi sýningarstjóra hér á landi og setti upp sýninguna á Kjarvalsstöðum ásamt konu sinni, Lenu Burasovsky, sem hefur meðal annars starfað sem túlkur fyrir Vladimir Putin, Rússlandsforseta. „Hann var besti ljósmyndari og listamaður Sovétríkjanna á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar og hann var ekki bara leiðandi þar, heldur er hann heimsþekktur fyrir verk sín,“ segir Sergey.

Sýningin hefur ferðast um heiminn í sex ár og hvarvetna notið vinsælda, að sögn Sergeys. Verkið á bak við hann í viðtalinu í meðfylgjandi sjónvarpsfrétt er uppáhaldsverk hans á sýningunni og við spurðum hann af hverju. „Ég kann vel að meta flestar myndirnar á þessari sýningu en mér finnst eins og þessi mynd hafi áhrif á mann djúpt inn í sálina og hugann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×