Innlent

Kaupþingstoppur ákærður fyrir skattsvik

Stígur Helgason skrifar
Ingvar Vilhjálmsson.
Ingvar Vilhjálmsson.
Sérstakur saksóknari hefur gefið út ákæru á hendur einum æðsta yfirmanni gamla Kaupþings fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum.

Ingvar Vilhjálmsson var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá Kaupþingi fyrir hrun. Samkvæmt ákæru á hendur honum, sem gefin var út 26. apríl, lét hann árið 2008 undir höfuð leggjast að telja fram rúmlega 498 milljóna króna hagnað af tólf framvirkum gjaldmiðlasamningum sem hann gerði við þáverandi vinnuveitanda sinn, Kaupþing.

Af slíkum tekjum ber að greiða fjármagnstekjuskatt, sem er tíu prósent, og því kom hann sér með þessu undan greiðslu rétt tæplega 50 milljóna í skatt. Verði hann fundinn sekur má hann búast við að þurfa að greiða skattinn og aðra eins upphæð í sekt. Ákæran verður þingfest á fimmtudag.

Ingvar hefur áður verið fyrir dómstólum. Í nóvember var hann dæmdur til að endurgreiða 2,6 milljarða króna sem hann hafði fengið að láni til að kaupa hlutabréf í bankanum. Hann flutti skuldirnar í einkahlutafélag daginn fyrir setningu neyðarlaganna í október 2008 en þeim flutningi var rift.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×