Útvarpskonan vinsæla, Valdís Gunnarsdóttir, verður jarðsungin frá Hallgrímskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15. Hún lést langt fyrir aldur fram eftir stutta sjúkralegu.
Fjölmargir vinir hennar og samstarfsmenn sendu henni kveðju í formi minningargreina í Morgunblaðinu í dag: „Valdís Gunnarsdóttir var eins og silkimjúkt flauel, fjólublátt. Röddin undurþýð, seiðandi og rómantísk, nærvera hennar einstaklega notaleg og augnaráðið geislaði af umhyggju,“ skrifar Þorgrímur Þráinsson rithöfundur um vinkonu sína.
Valdís starfaði lengstum sem flugfreyja sem og við útvarp þar sem stjarna hennar reis hátt til lofts; fyrst var hún á Rás 2 en þekktust er hún fyrir þætti sína á Bylgjunni. Hennar verður meðal annars minnst fyrir það að hefja Valentínusardaginn til vegs og vinsælda á Íslandi. „Valdís hafði algjöra sérstöðu sem útvarpskona og hún setti ný viðmið. Hún var stjarna,“ skrifar Jón Axel Ólafsson útgefandi og fyrrverandi útvarpsmaður. Hann kallar Valdísi Drottningu ljósvakans. Og vinur hennar Sigurður H. Hlöðversson, útvarpsmaðurinn Siggi Hlö, skrifar: „Valdís verður í mínum huga alltaf stærsta kvenútvarpsstjarna þjóðarinnar.“ Og söngvarinn og fyrrverandi útvarpsstjórinn Björgvin Halldórsson skrifar: „Rödd Valdísar er þögnuð en minningin mun lifa.“
Valdís fæddist í Reykjavík 10. nóvember 1958 en lést 8. desember 2013. Valdís eignaðist tvö börn, Gretu Lind Kristjánsdóttur, f. 1973, en hún ólst upp hjá ömmu sinni og afa í föðurætt og Hrafn Valdísarson sem fæddur er 1994. Stofnaður hefur verið sérstakur söfnunarreikningur fyrir son Valdísar, fyrir þá sem vilja minnast hennar: 0546-14-402988. Kt. 070594-2429.
Valdís Gunnarsdóttir jarðsungin í dag
Jakob Bjarnar skrifar
