Innlent

„Ummæli Gordon Brown voru fjármálalegt hryðjuverk“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í ítarlegu viðtali í Foreign Affairs.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í ítarlegu viðtali í Foreign Affairs.
Í nýjasta hefti bandaríska tímaritsins Foreign Affairs er birt ítarlegt viðtal við forseta Íslands Ólaf Ragnar Grímsson sem aðalritstjóri tímaritsins Stuart Reid tók á Bessastöðum.

Foreign Affairs  er einn helsti vettvangur umræðu um alþjóðamál í Bandaríkjunum.

Í viðtalinu er fjallað um stöðu Íslands og framtíð Norðurslóða, fjármálakreppuna og lærdómana af henni, aðgerðir ríkisstjórnar Gordons Browns, WikiLeaks og áhrif upplýsingabyltingarinnar á stjórnmál og samfélög, samspil lýðræðis og markaða, réttindi samkynhneigðra og menningu og nýsköpun á Íslandi.

Aðspurður hvenær forsetinn gerði sér grein fyrir því að fjármálahrun væri í aðsigi árið 2008 svaraði Ólafur að það hefði átt sér nokkra vikna aðraganda.

„Þegar fyrsti bankinn féll gerðum við okkur ekki grein fyrir því að hinir bankarnir myndu fylgja á eftir.  Gordon Brown [fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands] kom fram í sjónvarpinu og tilkynnti fyrir heiminum að Ísland væri gjaldþrota. Ég geng svo langt að segja að ummæli hans hafi verið fjármálalegt hryðjuverk gegn íslensku þjóðinni. Allur heimurinn trúði hans orðum og breska ríkisstjórnin flokkaði Ísland í sama flokk og hryðjuverkasamtök á borð við al-Qaeda.“

Bretar beittu hryðjuverkalögum gegn Ísland haustið 2008.

„Þetta var í raun með ólíkindum og sérstaklega ef litið er til þess að Ísland er eitt af stofnríkjum NATO, þjóð með engan her á bakvið sig og í gegnum árin mikill bandamaður Breta. Við vorum síðasta landið í heiminum sem átti að setja í þessa stöðu. Gordon Brown  hefði aldrei beitt hryðjuverkalögum gegn Frökkum eða Þjóðverjum. Þetta var aðeins tilraun hjá honum til að auka við vinsældir sínar.“

Þegar Íslendingar reyndu síðan að leita til Bandaríkjamanna, sem höfðu verið bandamenn þjóðarinnar í áratugi , eftir aðstoð var svarið einfalt:

„Sorry, við erum einfaldlega of uppteknir við að ráða við okkar eigin mál."

„Við vorum skilin ein eftir og allar hurðir í kringum okkur lokaðar.“

Íslendingar hafa gengið í gegnum erfiða tíma frá hruni og vinna nú stjórnvöld að því að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

„Skaðinn var mikill en þjóðin hefur náð að vinna ótrúlega vel úr þeirri stöðu sem kom upp og í raun mun betur en margir þorðu að vona. Hér eru enn ákveðin vandamál og fólk á um sárt að binda. Atvinnuleysi hefur minnkað töluvert og er núna um fimm prósent. Efnahagslífið hefur tekið við sér á ný og er hagvöxtur um tvö prósent.“

Lesa má viðtalið við Ólaf í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×