Fótbolti

Tveir skotnir til bana á leið á leik á HM-velli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arena Castelao völlurinn.
Arena Castelao völlurinn. Mynd/Nordic Photos/Getty
Brasilíumenn halda HM í fótbolta á næsta ári en það bárust ekki góðar fréttir frá einum af leikvöngunum sem verða notaðir í keppninni eftir rúmt ár. Brasilískir fjölmiðlar greindu frá því í morgun að tveir knattspyrnuáhugamenn hafa verið skotnir til bana á leið sinni á völlinn.

Arena Castelao leikvöllurinn er í borginni Fortaleza í norður Brasilíu. Atburðurinn gerðist í fimm kílómetra fjarlægð frá vellinum og í tengslum við leik liða Fortaleza og Ceara í brasilíska fótboltanum.

Skipulagsnefnd heimsmeistarakeppninnar vildi ekki tengja þessa árás beint við umræddan leik sem fór annars vel fram en annað er erfitt því atburðurinn varð eftir átök milli stuðningsmannahópa liðanna tveggja.  

Fórnarlömbin voru tveir ungir menn sem báðir voru stuðningsmenn aðkomuliðsins Ceara. Þeir voru á leiðinni á völlinn þegar að komu tveir stuðningsmenn Fortaleza á vélhjóli og skutu þá báða í höfuðið.

Stuðningsmenn Ceara voru þó ekki alveg saklausir því þeir höfðu byrjað átökin með því að kasta steinum í átt að stuðningsmönnum  Fortaleza samkvæmt heimildum The Folha de Sao Paulo blaðsins. Ceara vann leikinn 1-0 en þessi lið eru erkifjendur.

Arena Castelao völlurinn mun hýsa nokkra leiki á HM þar á meðal annan leik heimamanna í keppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×