Lögreglan óskar eftir að ná tali af ökumanni jeppabifreiðar með eftirvagn sem hugðist hleypa fólki á hestum yfir Vatnsendaveg á fimmtudaginn í síðustu viku. Grá fólksbifreið ók fram úr jeppanum við gangbraut til móts við hesthúsahverfið, og óskar lögreglan jafnframt eftir því að ná tali af ökumanni gráa bílsins.
Fimm ára piltur féll af baki og slasaðist þegar gráa bílnum var ekið framhjá. Sigurbjörg Magnúsdóttir, móðir drengsins sagði í samtali við fréttastofu á föstudaginn að ökumaðurinn hafi haldið flautu bílsins inni þegar hann þaut framhjá, með þeim afleiðingum að hestarnir fældust.
„Hann er með áverka á bakinu, á svæðinu hjá hryggnum, þar sem mænan er. Hann er mikið marinn þar og bara heppinn að hafa ekki lamast eða slasast ennþá meira. Það hefur greinilega verið einhver verndarvængur yfir honum," sagði Sigurbjörg í viðtali við Stöð 2 á föstudag.
Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum er málið varðar eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglustöðina í Hafnarfirði á skrifstofutíma (8-16) í síma 444-1140.
