Lífið

Færði Rodgers listaverk að gjöf

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Rodgers (t.v.) var himinlifandi með verkið.
Rodgers (t.v.) var himinlifandi með verkið.
Diskóboltinn Nile Rodgers, sem hélt tónleika í Hörpu í vikunni ásamt hljómsveitinni Chic, fékk óvæntan glaðning rétt áður en hann steig á svið.

Íslenski listmálarinn Hjalti Parelius færði goðinu mynd sem ber nafnið Notorious, en hún er nefnd í höfuð smellsins sem Rodgers samdi fyrir Duran Duran á sínum tíma.

„Ég kynnti mér hann í kjölfar vinsælda lagsins sem hann gerði með Daft Punk og komst þá að því að hann hefur samið svo gríðarlegt magn af smellum,“ segir Hjalti, sem ákvað í kjölfarið að færa honum þakklætisvott fyrir áratugi af stórkostlegri tónlist. „Ef einhver kann að meta poppaða myndlist þá er það hann, enda var hann himinlifandi með gjöfina.“

Rodgers var reyndar svo ánægður með glaðninginn að hann kallaði Hjalta á svið til sín í síðasta laginu ásamt fleirum, og fékk myndlistarmaðurinn því að dilla sér í góðar tíu mínútur við hlið meistarans. En er Rodgers frægasta stjarnan sem Hjalti hefur fært mynd að gjöf?

„Já ætli það ekki. Mig langaði mikið að koma mynd á Tom Cruise þegar hann var hér, enda held ég mikið upp á hann, þó ég sé reyndar ekki sammála honum í trúmálum,“ segir Hjalti og hlær. „En hann er töffari og það reyndist ómögulegt að komast að honum. Það er stigsmunur á milli stjarnanna. Cruise er með vegg utan um sig. Þú þarft að fara í gegnum svona tuttugu manns áður en þú kemur að aðstoðarmanninum hans.“

Hjalti undirbýr um þessar mundir sýningu sem verður opnuð á Menningarnótt, en fyrir áhugasama má sjá helstu verk á vefsíðunni hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.