Sameiningar grunnskóla voru of stór aðgerð þegar litið er til þess hversu litlum hagnaði hagræðingin hefur skilað og aðeins til þess fallnar að skapa óöryggi í skólasamfélaginu.
Þetta er skoðun Lífar Magneudóttur, fulltrúa Vinstri grænna í skóla-og frístundaráði, og Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í ráðinu.
„Við í Vinstri grænum höfum haldið því fram að þessar sameiningar skili engu nema að skapa óöryggi í skólasamfélaginu. Fjárhagslegur ávinningur sé enginn,“ segir Líf Magneudóttir.
„Í skýrslu starfshóps um greiningu tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila frá því í febrúar 2011 er lögð fram áætlun um hvað eigi að sparast. Það hefur alls ekki gengið eftir.“
Samkvæmt upplýsingum frá skóla- og frístundasviði borgarinnar hefur hagræðingin skilað 180 milljón króna sparnaði en gert var ráð fyrir 1.137 milljóna sparnaði.
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokks, var þátttakandi í undirbúningsstarfshópi en sat hjá við afgreiðslu á lokatillögum hópsins þar sem hún taldi að fjárhagslegur ávinningur af þeim væri of lítill miðað við það rask á skólastarfi sem þær hefðu í för með sér.
Þorbjörg Helga segir að ekki sé enn búið að sýna fram á hagnaðinn af sameiningunum, en hún óskaði eftir ítarlegri greiningu á hagræðingu á sviðinu vegna sameiningar skóla fyrir einum og hálfum mánuði. Þeirri beiðni hefur ekki verið svarað.
Segja engan ávinning af sameiningum
Nanna E. Jakobsdóttir skrifar
