Innlent

Tilhæfulausar kærur tefja fyrir hjá sérstökum saksóknara

Brjánn Jónasson skrifar
Aðeins hluti mála sem rannsökuð eru hjá sérstökum saksóknara enda fyrir dómi.
Aðeins hluti mála sem rannsökuð eru hjá sérstökum saksóknara enda fyrir dómi. Fréttablaðið/Anton
Talsverður fjöldi af tilhæfulausum kærum aldrei voru líkur á að myndu leiða til sakfellingar hafa tafið fyrir starfsmönnum embættis sérstaks saksóknara frá hruni, segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.

„Þetta geta til dæmis verið kærur þar sem töluvert vantar inn í söguna hjá kæranda, eða að viðkomandi háttsemi hafi verið kærð áður til lögreglu, og fengið þar málalyktir,“ segir Ólafur.

„Við höfum ekki tekið saman sérstaka tölfræði um þetta, en þetta kemur alltaf af og til upp,“ segir Ólafur.

Hann segir engar einhlítar skýringar á því hvers vegna fólk leggi fram kærur þar sem þeim eigi að mega vera ljóst að það muni ekki leiða til sakfellingar.

„Það virðist vera að einhverjir telji hanga í loftinu að það sé veiðileyfi á fjármálastofnanir í þessu umhverfi. Það gerir það kannski að verkum að fólk leitar til yfirvalda á nýjan leik og vonar að nú verði tekið öðruvísi á málinu. En auðvitað er fyrri niðurstaðan bindandi,“ segir Ólafur.

Hann segir þessi mál geta tekið töluverðan tíma fyrir starfsmenn embættisins, enda þurfi alltaf að skoða málin og í besta falli rökstyðja niðurfellingu. Ekki hafi verið tekið saman hver kostnaður embættisins hafi verið.

Af þeim hátt í 600 málum sem embættið hefur fjallað um hafa 247 verið felld niður. Ólafur segir tilhæfulausu kærurnar ekki stóran hluta af þessum fjölda. „En þær eru ekki lítið brot, þær telja nokkuð þessar kærur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×