Innlent

Styrktu Barnaspítala Hringsins með því að líka við Vísi á Facebook

Breki Logason skrifar
Fréttavefurinn Vísir stefnir á að gefa Barnaspítala Hringsins veglega peningagjöf rétt fyrir jól. Fólkið á Facebook mun ráða hversu há sú upphæð verður en nú þegar hafa safnast rúmar sjö hundruð þúsund krónur.

„Fyrir hvert ,like' sem við fáum þá ætlum við að gefa 25 krónur til Barnaspítala Hringsins og þar sem við erum með frekar marga vini á Facebook þá erum við nú þegar búin að safna um 750 þúsund krónum,“ segir Mikael Torfason, aðalritstjóri 365.

„Við á Vísi viljum styrkja spítalann um nokkrar milljónir og vonandi gefur þjóðin Barnaspítala Hringsins góða jólagjöf.“

Mikael segir að í upphafi hafi menn ætlað að fara af stað með leik þar sem fólk gæti unnið vinninga. Niðurstaðan hafi hinsvegar verið sú að eyða peningunum frekar í gott málefni og Barnaspítali Hringsins varð fyrir valinu. Sjálfur hefur Mikael persónulega reynslu af Barnaspítalanum.

„Jú, Barnaspítali Hringsins á stóran þátt í því að ég stend hér í dag og ég eyddi bernsku minni þarna þar til að ég var útskrifaður 10 ára gamall. Ég held að Barnaspítali Hringsins eigi hug og hjörtu þjóðarinnar,“ segir Mikael.

Barnaspítali hringsins vinnur

Peningarnir sem komi inn fari beint til Kvenfélagsins Hringsins sem er helsta stuðningsfélag spítalans. „Til að taka allan vafa af þá gefum við þessa peninga. Fólk líkar við en vinnur ekkert líkt og oft í þessum leikjum en barnaspítali Hringsins vinnur.“

Hægt er að taka þátt í leiknum með því að smella hér.

Vísir er hluti af 365 miðlum.
News/Media Website: 34,097 like this
 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×