Innlent

Þjóðkirkjan safnaði 15 milljónum króna til tækjakaups

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Frú Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, afhenti Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítalans, söfnunarféð.
Frú Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, afhenti Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítalans, söfnunarféð. Mynd/Þorkell Þorkelsson
Biskup Íslands, frú Agnes Sigurðardóttir, afhenti Páli Matthíassyni rúmar fimmtán milljónir króna sem er framlag Þjóðkirkjunnar til Geislans, sem styður Landspítala til kaupa á línuhraðli.

Línuhraðall er afar mikilvægt geislalækningatæki sem einkum er notað við krabbameinslækningar. Slíkt tæki kostar hátt í hálfan milljarð króna, endurnýja þurfti tækið og þessa dagana er verið að taka það nýja í notkun á spítalanum.

Þjóðkirkjan hóf fyrir tilstuðlan biskups söfnunarátak fyrr á þessu ári og tóku söfnuðir, félagasamtök og einstaklingar um land allt þátt. Bryddað var upp á fjölbreyttum söfnunarleiðum, svo sem vöfflusölu, biblíumaraþoni og þrjátíu tinda áheitafjallgöngum.

Við þetta tækifæri sagði biskup að ánægjulegt hefði verið að sjá söfnuði landsins sameinast um þetta verkefni fyrir þjóðarsjúkrahúsið. „Þið hafið sannað að hugmyndaauðgi og mannauður er mikill í kirkjunni,“ sagði Agnes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×