Innlent

Stór aurskriða fellur

Skriðan. Aðalleiðin milli Akureyrar og Húsavíkur er nú lokuð vegna skriðufalla.
Skriðan. Aðalleiðin milli Akureyrar og Húsavíkur er nú lokuð vegna skriðufalla.

Stór aurskriða, sem  féll úr lágu felli niður á þjóðveginn  á milli Akureyrar og Húsavíkur í nótt, lokaði honum. Heimamönnum þykir þetta með ólíkindum, enda hefur slíkt ekki gerst í manna minnum á þessum slóðum.

Skriðan féll úr tiltölulega lágu holti í óskiptu landi í grennd við bæinn  Ystafell í Köldukinn einhverntímann í nótt. Svo vel vildi til að engin var á ferð um veginn þegar skriðan féll, en vegfarandi sem kom þar að,  tilkynnti um hana laust fyrir klukkan sjö í morgun. Að sögn heimamanna ringdi á þessu  svæði sem aldrei fyrr og alveg fram á kvöld og er vatnselgur talinn hafa hrint skriðunni af stað. Hún er 70 til 100 metra breið alveg frá toppi fellsins og niður fyrir þjóðveg og skilur meðal annars eftir sig sár í gegnum skógræktarsvæði.

Heimamönnum þykir skýfallið í gær og svo aurskriða á þessum stað með slíkum ólíkindum að engu sé líkara en að huldar vættir séu með þessu að mótmæla fyrirhuguðum stórtækum umsvifum fyrrverandi útrásarvíkinga, á þessum slóðum. Á meðan vegurinn var lokaður var opin leið á milli áðurnefndra staða um Fljótsheiði. Vegagerðarmenn fóru svo að hleypa bílum í gegn, um tíuleitið og undir hádegið var vegurinn orðinn alveg fær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×