Lífið

Festisvall hefst á næstu dögum

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Listahátíðin Festisvall, sem nú er haldin í fjórða sinn, hefst 24. ágúst næstkomandi í Artima Gallerí og á Harlem bar.

Festisvall fór fram fyrst árið 2010 og var upprunalega ætlað að skapa vettvang fyrir grasrót íslenskra listamanna. 

Hátíðin hefur farið stækkandi og þátttakendum fjölgandi síðan þá en alls hafa á annað hundrað manns komið að Festisvalli frá upphafi.

„Festisvall hefur greitt leiðina fyrir grasrót ungra mynd- og tónlistarmanna og hátíðin í ár verður sú stærsta hingað til,“ segir Sævar Daníel Kolandavelu, einn af þeim sem kemur að hátíðinni í ár.

Þetta árið kemur hópur þýskra, breskra og franskra listamanna til landsins og vinna ásamt þrettán íslenskum listamönnum í vinnustofu sem er opin áhugasömum frá 20. ágúst fram að upphafi sýningar.

Sýningin sjálf opnar formlega á menningarnótt klukkan 14.00 í Artima Gallerí með mynd- og tónlistarverkum listamannanna og stendur yfir í tvær vikur.

Sævar Daníel Kolandavelu
„Erlendir og íslenskir tónlistarmenn munu svo halda veglega tónleika á Harlem Bar 28. ágúst,“ bætir Sævar við, en tónleikarnir hefjast klukkan níu.

Eftir að sýningu lýkur á Íslandi mun hópurinn ferðast til Þýskalands og sýningin verður sett upp í Leipzig og Berlín.

Fjölmargir listamenn koma fram á hátíðinni, en þar má nefna tónlistarmennina Futuregrapher, Georg Kára Hilmarsson og Björn Halldór Helgason - þá má nefna myndlistarmennina Árna Má Erlingsson, Davíð Örn Halldórsson, Sigtrygg Berg Sigmarsson, Sigurrós Eiðsdóttur, ásamt fjölmörgum öðrum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.