Lífið

Grínbræður sigra heiminn á YouTube

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Ylvis-bræðurnir eru elskaðir og dáðir um heim allan.
Ylvis-bræðurnir eru elskaðir og dáðir um heim allan.
Bræðurnir Bård og Vegard Ylvisåker mynda norska gríndúettinn Ylvis. Þeir eru mennirnir á bak við lagið The Fox sem hefur gert allt vitlaust á YouTube.

Bræðurnir Bård og Vegard Ylvisåker komu fyrst á sjónarsviðið í Noregi árið 2000 og slógu í gegn í sjónvarpsþáttum, á gríntónleikum, í útvarpsþáttum og tónlistarmyndböndum. Þeir stýra nú norska spjallþættinum I kveld med Ylvis og eru mennirnir á bak við lagið The Fox. Það gerði allt vitlaust á YouTube í september síðastliðnum og hefur verið horft á það rúmlega tvö hundruð milljón sinnum. Í kjölfarið vöktu bræðurnir hnyttnu heimsathygli.

Þátturinn I kveld med Ylvis var frumsýndur árið 2010. Þessi fyrsta sería vakti gríðarlega lukku á sjónvarpsstöðinni TVNorge og gerðu grínistarnir samning um aðra seríu. Þá ákváðu þeir að stofna framleiðslufyrirtækið Concorde TV til að eiga allan rétt á verkum sínum. Sería númer tvö af I kveld med Ylvis var frumsýnd í fyrra og sú þriðja nú í haust.

Í þættinum eru fjölmörg gríntónlistarmyndbönd sýnd en ekkert hefur vakið jafn mikla lukku og The Fox. Á fyrstu tveimur vikunum var horft á myndbandið fjörutíu milljón sinnum og anna bræðurnir varla eftirspurnum um viðtöl alls staðar að úr heiminum. Fyrsta viðtalið þeirra á erlendri grund var í spjallþætti Ellen DeGeneres í september síðastliðnum og í október tróðu þeir upp í spjallþætti Jimmy Kimmel. Þá hefur verið gert grín að laginu The Fox í skemmtiþættinum sívinsæla Saturday Night Live.

Hverju Ylvis-bræður taka upp á næst er óráðin gáta en ljóst er að allar dyr standa þeim opnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.