Innlent

Séra Þorgrímur gekk á 30 tinda í sumar

Presturinn segir að þessi þrjátíu tinda þraut hafi verið tekin meira með skynseminni en kröftunum.
Presturinn segir að þessi þrjátíu tinda þraut hafi verið tekin meira með skynseminni en kröftunum.
Þorgrímur Daníelsson, sóknarprestur á Grenjaðarstað, hefur lokið göngu sinni á þrjátíu tinda og stóðst þar með þá áskorun að ljúka því verki áður en ágústmánuður væri liðinn. Þetta gerði hann til að vekja athygli á Landspítalasöfnun þjóðkirkjunnar.

Lokatindurinn var Bolafjall við Bolungarvík og segir Þorgrímur að það hafi verið táknrænt því Agnes Sigurðardóttir hafi einmitt verið sóknarprestur í Bolungarvík áður en hún var vígð til biskups.

„Ég naut góðs félagsskapar á öllum ferðum nema í sjö skipti sem ég fór einn,“ segir Þorgrímur. „Förunautar mínir á Kambsmýrarhnjúk voru hinir harðsnúnu félagsmenn úr göngufélaginu 24 sinnum 24. Sem dæmi um harðfylgi þeirra má geta þess að nafnið er tilkomið af göngu þeirra á 24 tinda á sólarhring.“

Hann segist vera afar þakklátur með þann stuðning sem hann hefur fengið á leiðinni. „Ég segi bara eins og Stefán frá Hvítadal:

Ég á öllum gott að gjalda,

gleði mín er djúp og rík.“

Þegar blaðamaður spyr hvernig söfnunin gangi kemur Þorgrímur af fjöllum, enda Mammon ekki hans drottinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×