Innlent

Ístak í eigu Landsbankans

Gunnar Valþórsson skrifar
Ístak er nú komið í eigu Landsbankans. (Þessi mynd er tekin af verkamönnum þegar fyrirtækið var við framkvæmdirnar á Hellisheiði.)
Ístak er nú komið í eigu Landsbankans. (Þessi mynd er tekin af verkamönnum þegar fyrirtækið var við framkvæmdirnar á Hellisheiði.)
Landsbankinn eignaðist í gær 99,9 prósent hlutafés í verktakafyrirtækinu Ístaki, sem áður var dótturfélag danska verktakafyrirtækisins E. Phil&Søn A/S en móðurfélagið var lýst gjaldþrota í síðustu viku.

Kaupverð er trúnaðarmál að því er fram kemur í tilkynningu frá bankanum sem send var út í gærkvöldi. Þar segir að sem stærsti lánveitandi Ístaks vilji Landsbankinn með kaupunum skapa trúverðugt eignarhald á félaginu þannig að það geti áfram sinnt sinni starfsemi  og staðið við skuldbindingar sínar. Ný stjórn hefur þegar verið skipuð og er tekin til starfa. Ennfremur segir að staða Ístaks sé góð og að þeir erfiðleikar sem móðurfélagið hafi glímt við tengist ekki starfsemi Ístaks á nokkurn hátt.

Landsbankinn mun bjóða fyrirtækið til sölu fjárfestum með nauðsynlega þekkingu og fjárfestingargetu eins fljótt og auðið er og hefur Samkeppniseftirliti verið gerð grein fyrir kaupunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×