Innlent

Spúla burt umdeilda liti af Hofsvallagötu

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Umdeildir litir spúlaðir burt
Umdeildir litir spúlaðir burt Mynd/Wilhelm
Menn merktir framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar voru að spúla umdeildar merkingar á Hofsvallagötu með háþrýstisprautum í dag. Svo virðist sem verið sé að fjarlægja málningu af götunni sem valdið hafa deilum á milli hverfisbúa og skipulagsyfirvalda undanfarna daga.

Kristinn Fannar Pálsson situr í samráðsnefnd fyrir hönd hverfisbúa en hann kannast ekkert við málið. „Á síðasta fundi okkar í samráðshópnum með starfsmönnum umhverfis- og skipulagssviði var ekkert ákveðið. Það verður annar fundur í vikunni og þá mun borgin kynna tillögur að breytingum. Ég þekki ekki til framkvæmda á Hofsvallagötu,“ segir Kristinn.

Fréttastofa Vísis hefur reynt að ná sambandi við borgaryfirvöld til að fá nánari upplýsingar um málið. Ólafur Bjarnason, samgöngustjóri Reykjavíkur, þekkir ekki til málsins og ekki starfsmenn sem talað var við á framkvæmdasviði borgarinnar. Ekki náðist í Bjarna Brynjólfsson, upplýsingastjóra Reykjavíkurborgar, við gerð fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×