Innlent

Svara ekki gagnrýni á viðmiðunarreglur um kynferðisbrot

Elimar Hauksson skrifar
Séra Patrick Breen, staðgengill biskups kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, vildi ekki tjá sig um nýjar viðmiðunarreglur sem kaþólska kirkjan birti nú um helgina.

Reglunum er ætlað að vera til viðmiðunar varðandi ásakanir um ofbeldi eða kynferðislega misnotkun barna eða fullorðinna innan Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi.

Í 4.kafla nýju reglnanna,sem birtar eru á vef kirkjunnar, er fjallað um almenna starfshætti meðal annars við tilkynningu á misnotkun barna. Þar kemur fram skylda þeirra sem hafa vitneskju eða grun um ofbeldi eða misnotkun gagnvart ólögráða barni skuli tilkynna Barnaverndarstofu þegar í stað um allar ásakanir og einnig skuli upplýsa biskupinn um slíkt.

Frá þessari tilkynningarskyldu er gerð veigamikil undantekning í viðmiðunarreglunum. Í c.lið 4.kafla reglanna er tekið fram að innsigli skrifta sé órjúfanlegt og að presti sé aldrei heimilt að tala um það sem hann heyrir við skriftir. Þetta felur með öðrum orðum í sér að komist prestar kaþólsku kirkjunnar að broti gegn barni í skriftastóli þá mega þeir,skv. viðmiðunarreglum kirkjunnar, ekki tilkynna yfirvöldum um slík brot.

Heiða Björg Pálmadóttir, lögfræðingur Barnaverndarstofu, sagði í samtali við RÚV um helgina að það væri mjög skýr regla í barnaverndarlögum um tilkynningaskyldu allra, bæði almennings og fagaðila, og hún er í lögunum fortakslaus og mjög mikilvægt að hún sé virt.

Í Barnaverndarlögum kemur fram að brot gegn tilkynningarskyldu varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×