Innlent

Helmingi minni aukning hjá ÍSAL

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Ólafur Teitur Guðnason
Ólafur Teitur Guðnason

Framleiðslugeta álversins í Straumsvík verður aðeins aukin í 205 þúsund tonn á ári, en ekki 230 eins og fyrirhugað hafði verið. Þetta þýðir að fyrirtækið hefur ekki not fyrir nema rúm 28 af þeim 75 megavöttum sem það hafði samið við Landsvirkjun um. Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær hafa tæknilegir örðugleikar sett strik í reikninginn. Ætlunin var að auka strauminn sem notaður er og framleiðsluna þannig með. Í tilkynningu frá fyrirtækinu, sem barst í gær, segir að ekki hafi verið talið fýsilegt að verja meiri fjármunum en þegar hefur verið gert til að ná fram framleiðsluaukningunni.

Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan á Íslandi, segir að fyrirtækið sé með samning við Landsvirkjun um 75 viðbótarmegavött. „Sá samningur er til 2036 og hann er enn þá í gildi. Núna þurfum við bara að setjast niður með Landsvirkjun og fara aðeins yfir hvað þetta þýðir og hvernig við leysum úr þessari stöðu sem er komin upp. En samningurinn gildir enn.“ Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði í Fréttablaðinu í gær að ljóst væri að seinkun yrði á verkefninu, en vísaði að öðru leyti á forsvarsmenn álversins. Ekki náðist í hann í gær.

Kostnaður við framleiðsluaukninguna var áætlaður um 57 milljarðar og í tilkynningu fyrirtækisins segir að hann verði vart undir því. Nú þegar hafi yfir 50 milljörðum verið varið í verkefnið, sem og breytingar á framleiðsluafurðum og það að auka rekstraröryggi. Þá hafi verkefnið skapað yfir 600 ársverk, eins og áætlað var.

„Ákvörðun þessi hefur ekki áhrif á aðra meginþætti fjárfestingarverkefnisins í Straumsvík, það er að skipta að fullu yfir í framleiðslu á stöngum í stað barra og að auka afkastagetu lofthreinsivirkja. Rétt er að leggja áherslu á að í dag vinna um 150 manns að þeim verkefnum sem haldið verður áfram með.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×