Innlent

„Allt morandi í glæpum í samanburði við Ísland“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Íslendingar eru vel vopnaðir samkvæmt rannsóknum.
Íslendingar eru vel vopnaðir samkvæmt rannsóknum. Mynd úr safni

Bandaríski laganeminn Andrew Clark skrifar á vef BBC um tíðni ofbeldisglæpa á Íslandi og veltir því fyrir sér hvers vegna hún er jafn lág og raun ber vitni.

„Ég hafði verið í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, en þar virtist allt morandi í glæpum í samanburði við Ísland,“ segir Clark, en hann kom í fyrsta skipti hingað til lands í fyrrasumar.

Hann segir áætlaðar tölur um fjölda skotvopna á Íslandi vera um 90 þúsund, en það setur landið í 15. sæti yfir þau lönd í heiminum með flest skotvopn miðað við höfðatölu.

Engu að síður hafi morðtíðni á Íslandi hæst verið 1,8 á hverja 100 þúsund íbúa á árstímabili frá 1999 til 2009, á meðan framin voru á bilinu 5,0 til 5,8 morð á hverja 100 þúsund íbúa árlega í Bandaríkjunum yfir sama tímabil.

Clark segir ástæðu hinnar lágu tíðni ofbeldisglæpa margþætta. Meðal annars spili það inn í að 97% íslensku þjóðarinnar telji sig tilheyra millistétt eða verkamannastétt, og því sé engin spenna milli stétta, en það segir hann afar sjaldgæft. „Hér eru börn auðjöfra í sama bekk og önnur börn,“ hefur hann eftir Björgvini Sigurðssyni, þingmanni Samfylkingarinnar.

Þá nefnir hann önnur atriði á borð við vopnleysi lögreglumanna og lítið magn harðra fíkniefna í umferð. Yfirvöldum hafi gengið vel að halda skipulagðri glæpastarfsemi niðri og gripið sé inn í þegar ákveðin tegund glæpa virðist fara vaxandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×