Innlent

Páll ákærður fyrir vopnalagabrot

Valur Grettisson skrifar
Páll heldur úti vinsælu veiðisafni á Stokkseyri.
Páll heldur úti vinsælu veiðisafni á Stokkseyri.
Ríkissaksóknari hefur ákært Pál Reynisson, forstöðumann Veiðisafnsins á Stokkseyri, fyrir vopnalagabrot sem áttu sér stað á heimili Páls sumarið 2011. Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Suðurlands í dag.

RÚV greinir frá því að Páll hafi verið ákærður í þremur liðum. Þannig er honum gefið að sök að hafa hleypt þremur skotum af Smith & Wesson-skammbyssu, undir áhrifum áfengis, inni á heimili sínu og við það.

Fyrsta skotinu hleypti Páll af innandyra, því næsta út um útidyrahurð á heimili sínu, sem er í þéttbýli, og því þriðja utandyra við húsnæðið.

Hann er einnig ákærður fyrir að hafa í viðræðum við tvo lögreglumenn, undir áhrifum áfengis, farið inn í herbergi gegnt útidyrahurðinni og sótt tvær skammbyssur, aðra af gerðinni Smith & Wesson og hina af gerðinni Glock 23, komið til baka og handleikið þær andspænis lögreglumönnum og tjáð þeim að þær voru hlaðnar.

Þriðji liður ákærunnar lýtur svo að því að hann hafi hagað geymslu þessara skotvopna með ófullnægjandi hætti þar sem skammbyssurnar tvær og skotfæri voru óaðskilin og ekki í læstum hirslum.

Páll vildi ekki tjá sig um dómsmálið við fréttastofu þegar eftir því var leitað í dag. Í mars á síðasta ári sagði hann í viðtali við Fréttablaðið að hann hefði fallið á áfengisbindindi, en þá var hann búinn að vera edrú í á þriðja tug ára.

„Ég er búinn að taka á mínum málum en það sem er sárast fyrir mig er að hafa fallið eftir tæplega 26 ára edrúmennsku," sagði Páll og bætti við:

„Þó að þetta hafi skeð þá vita þeir sem til þekkja að kallinn er alveg í lagi. Ég vil þakka fyrir þann stuðning og skilning sem ég hef fengið í þessu máli, hann hefur verið ótrúlegur og hefur komið mér á óvart."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×