Fótbolti

Lagerbäck: Munum spila við lakari lið en Rússland

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Landsliðsþjálfarinn Lars Lagerbäck telur að það hafi vel þess virði að prófa að tefla fram jafn sókndjörfu liði og hann gerði gegn Rússlandi í kvöld. Leikurinn tapaðist þó, 2-0.

„Það eru alltaf vonbrigði að tapa en ég er samt ánægður með mína leikmenn að mörgu leyti. Þetta var góð liðsframmistaða gegn einu af tíu bestu landsliðum heims," sagði Lagerbäck við Vísi í kvöld.

„Við ræddum það sérstaklega fyrir leik að halda boltanum og byggja upp sóknir. Við vorum hins vegar mjög fljótir að missa boltann og það olli mér mestum vonbrigðum."

„Við vissum að Rússarnir myndu pressa mikið á okkur þegar við vorum með boltann en það þýðir samt ekki að sparka alltaf boltanum frá sér. Það þarf að finna rétta jafnvægið í þessum efnum."

Lagerbäck stillti upp sókndjörfu liði í kvöld og segist ánægður með útkomuna.

„Mér fannst þeir standa sig vel. Þetta voru sókndjarfari vængmenn en við höfum áður teflt fram og ég held að þetta sé uppstilling sem verði hægt að nota í framtíðinni. Sem betur fer eigum við eftir að spila við lið sem eru ekki jafn góð og rússneska liðið."

„Þetta var próf og það er mögulegt að nota þessa uppstillingu aftur. Maður vill alltaf vera með sína bestu leikmenn á vellinum en stundum þarf að fórna því til að fá betra jafnvægi í liðið."

„Næst á dagskrá er að leikgreina þennan leik og skoða hvað við getum nýtt okkur í leiknum gegn Slóveníu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×