Innlent

Vill meira líf í kirkjugarðinn

Karen Kjartansdóttir skrifar

Hólavallakirkjugarður er orðinn býsna gamall og sumar grafirnar hirðir engin lengur um. Heimir Björn Janusarson, umsjónarmaður kirkjugarðsins, segir að þó nokkuð sé um að fólk láti setja duftker í garðinn mætti vera enn meira gert af því.

„Þá ganga leiðin í gegnum endurnýjun lífdaga ef svo má segja. Ein leiðin er að setja þau ofan á gamlar kistur. Það er mjög gott því þá eru fleiri sem standa að leiðunum og fleiri sem hugsa um þau og þeim er haldið betur við. Það er akkúrat þetta sem heldur lífi í kirkjugarði að það sé verið að grafa í hann áfram," segir Heimir.

Friðhelgi íslenskra kirkjugarða er mun meiri en tíðkast víðast hvar annars staðar, því þótt grafhelgin takmarkist við 75 ár á hverju leiði er engin hefð fyrir hrófla við gröfum að þeim tíma liðnum svo endurnýta megi landið. Íslenskan hefðin fyrir endurnýtingu grafa hefur sjálfkrafa orðið sú að duftker ættingja eru settar ofan á gamlar kistur en um helmingur þeirra duftkerja sem grafin eru í Reykjavík eru sett í gamlar grafir.

„Það má vera enn meira því þetta er mjög góð nýting á landi. Og svo er líka mjög þægilegt á aðfangadag að þurfa bara að fara í einn kirkjugarð með kerti," segir Heimir.

Þú hvetur fólk til að huga snemma að þessum óhjákvæmilega hluta framtíðarinnar?

„Já, fólk getur farið á netið og fyrirskipað að það vilji láta brenna sig og fá kannski að hvíla hjá afa og ömmu. Þú gerir það ekki eftir á."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×