Góður árangur náðist í kastgreinum á Vormóti HSK á Selfossi í gær en mótið var það fyrsta utanhúss á tímabilinu.
Örn Davíðsson náði sínum öðrum besta árangri frá upphafi í spjótkasti. FH-ingurinn kastaði 72,32 m en á best 75,96 m frá því í fyrra.
Hilmar Örn Jónsson úr ÍR heldur áfram að bæta árangur sinn í sleggjuasti. Á sama tíma í fyrra kastaði hann sleggjunni 55,67 m, en nú flaug hún 55,93 m. Árangurinn er jafnframt sá besti í aldursflokki 16-17 ára frá upphafi.
Hilmar Örn sigraði einnig í kúluvarpi í sínum aldursflokki með kasti upp á 17,22 metra. Hans besti árangur með kúluna er 17,52 metrar.
Hulda Þorsteinsdóttir úr ÍR sigraði í hástökki með stökki upp á 1,50 metra en Hulda hefur hingað til einbeitt sér að stangarstökki.
Haraldur Einarsson úr HSK, nýkjörinn þingmaður, sýndi að stjórnmálaþátttakan hefur ekki alveg tekið hug hans allan. Hann vann bæði sigur í 100 metra hlaupi og 300 metra hlaupi.
Stefán Velemir úr ÍR bætti sinn besta árangur í kúluvarpi með 6 kg kúlu um tæpa tvo metra. Stefán átti best 13,51 metra en kastaði í gær 15,32 metra.
Strekkingsvindur setti sitt mark á mótið og nær allur árangur í spretthlaupum og langstökki var með of mikilum meðvindi til að geta talist löglegur.
Nýkjörinn þingmaður hljóp hraðast
