Innlent

Ferðamönnum fjölgar í október

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Frá því talningar hófust í Flugstöð Leifs Eiríkssonar árið 2002 hefur árleg aukning ferðamanna í október verið að jafnaði 10,9 prósent milli ára.
Frá því talningar hófust í Flugstöð Leifs Eiríkssonar árið 2002 hefur árleg aukning ferðamanna í október verið að jafnaði 10,9 prósent milli ára. Mynd / Þorgils Jónsson
Um 53 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í október í ár samkvæmt talningum Ferðamálastofu eða um 7.900 fleiri en í október í fyrra. Um er að ræða 17,6 prósent aukningu ferðamanna milli ára.

Frá því að Ferðamálastofa hóf talningar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar árið 2002 hefur árleg aukning í október verið að jafnaði 10,9 prósent milli ára.

Flestir ferðamenn í október voru frá Bretlandi (24,6%) og Bandaríkjunum (13,5%). Þar á eftir komu Norðmenn (8,9%), Danir (7,5%), Þjóðverjar (6,0%), Svíar (4,8%), Kanadamenn (3,7%) og Frakkar (3,2%). Bretum og Norður-Ameríkönum fjölgar mest á milli ára.

Frá áramótum hafa tæplega 700 þúsund erlendir ferðamenn farið frá landinu eða um 111 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Aukningin nemur 19,1 prósent á milli ára. Norðurlandabúum hefur fjölgað minnst af þessu stærstu hópum ferðamanna, eða um þrjú prósent.

Um 38 þúsund Íslendingar fóru utan í október eða um 2.300 fleiri en í fyrra. Frá áramótum hafa um 312 þúsund Íslendingar farið utan eða svipaður fjöldi og árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×