Enski boltinn

Alfreð má hefja viðræður við Cardiff

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Mynd/NordicPhotos/Getty
Alfreð Finnbogason, framherji hollenska liðsins Heerenveen og langmarkahæsti leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar eins og er gæti verið á leiðinni í ensku úrvalsdeildina ef marka má fréttir í hollenskum fjölmiðlum.

Margir hollenskir fjölmiðlar greina frá því á netsíðum sínum í dag að Alfreð hafi fengið leyfi til þess að hefja viðræður við enska úrvalsdeildarliðið Cardiff City en með liðinu leikur einmitt landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson. Fréttin birtist fyrst á netsíðu Omrop Fryslan.

Hollenskir miðlar eru með heimildir fyrir því að Heerenveen sé tilbúið að selja Alfreð fyrir 10 milljónir evra eða 8,6 milljónir enskra punda en það þýðir að hann færi á um 1,6 milljarð íslenskra króna.

Aron Einar skoraði fyrsta mark Cardiff í ensku úrvalsdeildinni í 3-2 sigri á Manchester City um helgina. Cardiff er nýliði í deildinni en malasíski eigandinn Vincent Tan hefur komið með mikinn pening inn í félagið.

Alfreð hefur farið á kostum í byrjun tímabilsins og er búinn að skora sex mörk í fyrstu fjórum umferðunum. Hann hefur skorað 30 mörk í 35 deildarleikjum með Heerenveen.

Alfreð er í viðræðum við Heerenveen um að gera nýjan samning en frábær frammistaða hans hefur vakið upp mikinn áhuga liða í stærri deildum í Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×