Innlent

Telja ekki gengið nógu langt

hvalaskoðun Farþegum í hvalaskoðun fjölgaði um 45.000 manns á milli ára. fréttablaðið/gva
hvalaskoðun Farþegum í hvalaskoðun fjölgaði um 45.000 manns á milli ára. fréttablaðið/gva

Samtök ferðaþjónustunnar fagna ákvörðun Steingríms J. Sigfússonar, fráfarandi atvinnu- og nýsköpunarráðherra, um að stækka verndað svæði á Faxaflóa til hvalaskoðunar.

Samtökin furða sig jafnframt á því að hrefnuveiðar skuli hafa byrjað án þess að nefnd um nýtingu hvala hafi lokið störfum. Samkvæmt reglugerð ráðherra nær griðasvæðið frá Garðskaga á Reykjanesi að Skógarnesi á Snæfellsnesi en náði áður frá Garðskaga og norður fyrir Akranes.

Er breytingin rökstudd þannig að umfang og þjóðhagslegt mikilvægi hvalaskoðunar hafi aukist og mikilvægt sé að umgjörð greinarinnar sé ásættanleg. Hvalaskoðunarsamtök Íslands segja breytinguna ekki ganga nægilega langt.

Hrefnuveiðimenn furða sig á ákvörðuninni og tímasetningu hennar. Sjómenn séu útilokaðir frá aðalmiðum og endurmeta þurfi stöðuna frá grunni er varðar veiðarnar.

Samtök ferðaþjónustunnar hafa lagt mikla áherslu á að banna allar hvalveiðar í Faxaflóa og innan 30 sjómílna frá öllum hvalaskoðunarsvæðum. Í tilkynningu segir að þrátt fyrir að ráðherra hafi ekki orðið við þeirri ósk þá sé skrefið mikilvægt. Samtökin líta á hrefnuveiðar sem beina ógn við starfsemi hvalaskoðunarfyrirtækja við Faxaflóa. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×