Innlent

Veðurstofan spáir allt að 20 stiga frosti

Brjánn Jónasson skrifar
Hægt er að mæla frostþol á frostlegi bílvéla á bensínstöðvum og smurstöðvum.
Hægt er að mæla frostþol á frostlegi bílvéla á bensínstöðvum og smurstöðvum. Fréttablaðið/GVA
Veðurstofa Íslands spáir miklu kuldakasti á landinu frá miðvikudegi fram á föstudag. Frostið gæti farið í 20 gráður segir veðurfræðingur. Bíleigendur eru minntir á að búa bíla sína undir frostið.

„Það er kalt heimskautaloft að síga yfir landið. Það er stór og voldug hæð suður í hafi sem dregur heimskautaloftið yfir landið og veldur þessum mikla kulda,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Frostið mun víða verða á bilinu 10 til 15 stig, og staðbundið mun það fara í 20 stig, segir Þorsteinn.

Hann segir að spár geri ráð fyrir því að kuldakastið muni vara fram á aðfaranótt laugardags þegar suðvestanáttin muni færa landsmönnum hlýindi.

Sigurjón Bruno, bifvélavirki og tæknistjóri hjá Bifreiðaverkstæði Reykjavíkur, brýnir fyrir bíleigendum að búa bílana undir kuldann. Kanna þarf frostþol á frostlegi á vélinni. Sé frostþolið ekki nóg getur vélin, vatnskassinn og fleira skemmst í frostinu. Þá þarf að gæta þess að rúðuúði þoli nægilega mikið frost.

Rafgeymar geta farið í frostinu og raki myndast í gamalli olíu. Hvort tveggja hefur þær afleiðingar að bílarnir fara ekki í gang.

Sigurjón segir að fólk sem fari reglulega með bílinn sinn í smurningu þurfi ekki að hafa áhyggjur, en þeir sem hafi sparað sér það undanfarið ættu að drífa sig af stað. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×