Innlent

Stjórnarflokkarnir verða að axla ábyrgð

Ögmundur Jónasson þingmaður Vinstri grænna
Ögmundur Jónasson þingmaður Vinstri grænna
Ögmundur Jónasson þingmaður Vinstri grænna tók undir það með félagsmálaráðherra í umræðum um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð á Alþingi í dag, að mikilvægt væri að allir sameinuðust um að móta framtíðarstefnu fyrir sjóðinn.

Nú væru menn hins vegar að ræða fortíðina og aðdraganda þess að sjóðurinn komst í þá stöðu sem hann væri í dag.

„Þessi skýrsla fjallar um það hvaða stjórnmálamenn, hvaða stjórnmálaflokkar og hvaða stofnanir brugðust. Um það eigum við að ræða. Það þýðir ekki að reyna að drepa þessari rammpólitísku umræðu á dreif, með almennu orðfæri af þessu tagi," sagði Ögmundur á Alþingi.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafi brugðist í veigamiklum efnum á þeim tíma sem rannsóknarskýrslan næði til.

„Og þessir flokkar og stjórnmálamenn verða að axla sína ábyrgð. Við þurfum að horfa gagnrýnið á það hver hún var," sagði Ögmundur.

Á þessum tíma hafi fjármálafyrirtæki og bankar reynt að ná öllum íbúðarlánum til sín og talað hafi verið um að leggja Íbúðalánasjóð niður, á sama tíma og dregið var úr félagslegu hlutverki sjóðsins.

Ögmundur varaði við því ef menn ætluðu nú að draga enn frekar úr félagslegu hlutverki Íbúðalánasjóðs í ljósi þessarar skýrslu.

„En ef að ríkisstjórnin ætlar að fara grafa enn frekar undan því félagslega í því okkar húsnæðiskerfi, þá segi ég bara þetta: Það verður okkur að mæta,“ sagði hann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×