Innlent

Fjarstýrt gasgrill og sjálfvirkt vélmenni

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Birgir Hallgrímsson sést hér með teslaspólu sem spilar tónlist.
Birgir Hallgrímsson sést hér með teslaspólu sem spilar tónlist. fréttablaðið/GVA

Hvalarannsóknarbauja, álagsgreining fyrir loftfimleika, sjálfvirkt iðnvélmenni í fullu fjöri, teslaspóla sem spilar tónlist, jeppakerra með krana og rafdrifið gasgrill sem hægt er að færa með fjarstýringu eftir hentisemi voru meðal þess sem nemendur á tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík kynntu á uppskeruhátíð sem haldin var hátíðleg í gær.

„Þetta er í rauninni kynning nemenda á verkefnum sem þeir hafa verið að vinna í þriggja vikna námskeiðum,“ segir Guðrún Sævarsdóttir, forseti tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík.

„Tilgangur námskeiðsins er að nemendur fái hugmynd, útfæri hana, hrindi henni í framkvæmd og fylgi henni svo eftir. Þannig eflum við áhuga nemenda á fræðilega efninu, eftir þessum praktísku leiðum. Með því að leyfa þeim að prófa sjálfum. “ Guðrún var að vonum ánægð með nemendur sína.

„Krakkarnir eru í skólanum næstum allan sólarhringinn á meðan á þessu námskeiði stendur. Þetta er rosalega skemmtilegt verkefni, fyrir kennara og nemendur, og afraksturinn náttúrulega rosalega áhugaverður og skemmtilegur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×