Innlent

Birkifræ græða land við Heklu

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Í tilkynningu Hekluskóga segir að nóg sé nú af birkifræi víða um land.
Í tilkynningu Hekluskóga segir að nóg sé nú af birkifræi víða um land. Mynd/Hreinn Óskarsson
Hafin er árviss söfnun Hekluskóga á birkifræi og kallað eftir aðstoð almennings.

Hekluskógar nýta fræið til sáninga í hálfgróin lönd, svo sem í hraun og grýtt land þar sem erfitt getur verið að gróðursetja. Sáð verður strax í haust.

Söfnunin snýst um að safna birkifrækönglum, helst af fallegum birkitrjám frá byrjun september og fram í byrjun október.

Tekið er á móti birkifræjum í móttökustöðvum Endurvinnslunnar að Knarrarvogi 4 og Dalvegi 28. Eins má senda afrakstur söfnunarinnar beint til Hekluskóga í Gunnarsholti. 

„Nóg er af birkifræi víða um land og nú kominn réttur tími til að safna,“ segir í tilkynningu Hekluskóga.

„Á sunnanverðu landinu hefur fræið þroskast heldur seinna en undanfarin ár og ætti að vera hægt að safna því allan septembermánuð.“

Hekluskógar hafa starfað í rúm fimm ár og hafa að markmiði að endurheimta birkiskóga og víðikjarr í nágrenni Heklu.

„Slíkir skógar minnka vikurfok í kjölfar gjóskugosa úr Heklu og öðrum eldfjöllum. Með skógunum eykst fjölbreytni gróðurs og dýralífs á svæðinu,“ segir í tilkynningu Hekluskóga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×