Innlent

Fá ekki að safna lífrænum úrgangi

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Páll Hjaltason, fulltrúi Besta flokksins, er formaður umhverfis- og skipulagsráðs.
Páll Hjaltason, fulltrúi Besta flokksins, er formaður umhverfis- og skipulagsráðs.
„Meirihlutinn er gjarnan með fagurgala um endurvinnslu í ræðu og riti en þegar til kastanna kemur er aukinni endurvinnslu hafnað,“ segja sjálfstæðismenn í bókun í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur.

Bókunina gerðu sjálfstæðismenn er þeir greiddu atkvæði gegn því að Gámaþjónustunni yrði synjað um leyfi til að safna lífrænum úrgangi frá heimilum fólks í borginni.

Fulltrúar meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar, auk fulltrúa Vinstri grænna, sem synjuðu Gámaþjónustunni um leyfið, segja einkafyrirtæki hingað til hafa haft starfsleyfi til að sækja þurr endurvinnsluefni til heimila. Fyrirkomulag varðandi lífrænan úrgang og blandaðan heimilisúrgang sé annars eðlis.

„Þar er um grunnþjónustu að ræða. Við teljum að henni sé best fyrir komið hjá sveitarfélögunum, enda hafa þau lögbundnar skyldur á þessu sviði,“ bókuðu fulltrúarnir.

Sjálfstæðismenn segja að í stað þess að fagna því að einkafyrirtæki bjóði fleiri flokka til endurvinnslu en borgin sé þeim mætt með mikilli tortryggni í umhverfis- og skipulagsráði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×