Innlent

Margir í annarlegu ástandi í nótt

Gunnar Valþórsson skrifar
Lögreglan hafði í mörg horn að líta í nótt.
Lögreglan hafði í mörg horn að líta í nótt.
Fjórir ökumenn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna voru teknir úr umferð af lögreglu í nótt.

Einn þeirra er auk ölvunarakstursins sagður hafa veist ítrekað að konu sem var með honum í bílnum og þurfti lögregla að vista hann í fangageymslu uns hægt verður að ræða við hann.

Þá var annar tekinn sem ók án ökuréttinda og reyndi svo að villa um fyrir lögreglu með því að gefa upp rangt nafn og kennitölu, án árangurs. Þá segist lögregla hafa þurft að hafa afskipti af aðila í annarlegu ástandi í miðborginni. Sá hafði fíkniefni í fórum sínum en engin skilríki og gat ekki gert grein fyrir sér. Hann var því vistaður í fangageymslu meðan ástand hans lagast.

Tíu manns gistu fangageymslur lögreglunnar þessa nóttina, þar af eru fjórir í gistingu að eigin ósk eins og lögreglan orðar það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×