Innlent

Kastaði sér fyrir bíl og vildi bætur

Boði Logason skrifar
Ökumaðurinn og tryggingarfélagið var sýknað af kröfum mannsins.
Ökumaðurinn og tryggingarfélagið var sýknað af kröfum mannsins. mynd/hari
Karlmaður sem sagðist ætla að binda endi á eigið líf með því að kasta sér fyrir bíl við Höfðabakka í desember árið 2010 fór í mál við ökumanninn sem keyrði á hann og tryggingarfélagið sitt.

Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir skömmu.

Maðurinn, sem var mjög ölvaður þegar slysið varð, með 2,68 prómill í blóðinu, sagði fyrir dómi að hann hafi verið mjög drukkinn og verið drukkinn í 3 til 4 daga þegar hann gekk út á götuna.

Það hafi verið komið að lokatúrnum og ætlaði hann í áfengismeðferð daginn eftir. Hann hafi verið á leið til vinar síns vestur í bæ, og þeir ætlað að borða saman. Töluverð umferð hafi verið og hann ekki í ástandi til að meta getu sína og fjarlægðir. Hann hafi talið sig sjá glufu til að sleppa yfir hægri akrenina og ná yfir á hina akreinina. Það hafi alls ekki verið ætlun hans að svipta sig lífi.

Leit ekki í kringum sig

Vitni að slysinu sagði hjá lögreglu að það hafi séð manninn ganga út á götuna og hann hefði ekki horft í kringum sig. „Engu líkara en að hann hefði ætlað sér að verða fyrir bíl.“

Annað vitni að slysinu sagði að það hafi „hugsað að maðurinn væri greinilega í sjálfsmorðshugleiðingum þegar þegar hún sá hann æða út á akbrautina án þess að líta í kringum sig."

Sömu sögu sagði lögreglumaður sem tók skýrslu af manninum stuttu eftir slysið. „Aðspurður um aðdraganda slyssins hafi stefnandi sagt að ætlun hans hafi verið að binda enda á þetta. Aðspurður hvort ætlunin hafi verið að binda enda á líf sitt hafi stefnandi jánkað því.“

Ökumaðurinn sem keyrði bílinn sagði hjá lögreglu að hann hafi ætlað að sveigja frá manninum en ekki náð því og maðurinn lent á hægra framhorni bifreiðarinnar. Hann hafi kastast upp á framrúðuna og dottið niður við hlið hennar. Hann hafi ekki haft tök á að snarstöðva bifreiðina.



Ekki hægt að taka mark á yfirheyrslum eftir slysið

Fyrir dómi kvað maðurinn sig eiga rétt á bótum. Taldi hann meðal annars að ökumaður bifreiðarinnar sem ók á hann hafi sýnt af sér ógætni með því að aka of hratt. Sagði hann að ekkert mark sé takandi á yfirheyrslum yfir honum á slysadeild, og það sé fráleitt að hann hafi kastað sér fyrir bifreiðina.

Ökumaður bifreiðarinnar, og tryggingarfélagið, sögðu fyrir dómi að maðurinn beri einn ábyrgð á umferðarslysinu, og að hann hafi valdið því af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.

Í fyrsta lagi hafi slysið orðið vegna ölvunarástands stefnda og þess ásetnings hans að verða fyrir bifreið. Hann hafi ákveðið „þegar hann yfirgaf veitingastaðinn Péturs Pöbb að verða fyrir bifreið sem ekið var norður Höfðabakka umræddan dag og taka þeim afleiðingum sem slysið hefði í för með sér.“ Það hafi komið skýrt fram í skýrslum sem voru teknar á vettvangi af ökumanni bifreiðarinnar, vitnum og í skýrslu lögreglumanns.

Háttsemin meginorsök líkamstjónsins

Í niðurstöðu dómara segir að enginn möguleiki hafi verið að koma í veg fyrir áreksturinn. Maðurinn hafi hvorki sinnt þeim reglum umferðarlaga, né almennum varúðarreglum sem gæta ber við slíkar aðstæður.

Þá segir einnig: „Samkvæmt framburði þriggja vitna sem staðfestur var fyrir dómi er því lýst að stefnandi hafi gengið rakleitt út á götuna án þess að líta í kringum sig. Þá kom fram í vitnisburði lögreglumanns sem ræddi við stefnda skömmu eftir slysið á slysadeild að stefndi hefði aðspurður ætlað að binda enda á líf sitt er hann gekk út á götuna,“ segir í niðurstöðu dómara.

„Hann var verulega ölvaður þegar hann gekk rakleitt út á akbraut í myrkri um miðjan desember, þar sem mikil umferð var og leyfður hámarkshraði er 60 kílómetrar á klukkustund. Er háttsemi hans meginorsök líkamstjónsins, sem hann varð fyrir,“ segir í niðurstöðukafla dómara.

Ökumaðurinn og tryggingarfélagið var því sýknað af kröfum mannsins. Og var lögfræðikostnaður mannsins greiddur úr ríkissjóði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×