Lífið

Áramótaheit fræga fólksins: Fer mjúkum höndum um bjölluna

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
"Ég strengi aldrei áramótaheit; að minnsta kosti ekki í neinni alvöru. En nýlega  var mér sagt að gerð hafi verið könnun á gildi slíkra heitstrenginga, eins og auðvitað á öllu öðru og niðurstaðan væri sú að ef maður skrifaði niður áramótaheitin sín, þá væri líklegra að maður stæði við þau. Fyrst svo er, hvað má þá segja um áramótaheit sem birtast á Visir.is?!" segir Einar K. Guðfinnson, forseti Alþingis.

"Það væri auðvitað skynsamlegt að heita því að standa sig almennt vel, taka upp heilbrigðari lífsstíl, vera betri heimilisfaðir, láta af alls konar ósiðum og lofa því að verða nýr og betri maður. Þetta væri auðvitað óskaplega metnaðarfullt og hver veit nema maður springi á limminu, svona hér um bil í beinni útsendingu.

En svo rifjaðist upp fyrir mér að um daginn hafði samband við mig eldri maður, sem kvartaði undan því hve ég væri harðhentur á bjöllunni í þinginu, þegar ég reyndi að koma skikk á umræður á Alþingi. Hann sagðist hrökkva upp úr stól sínum þegar hann horfði á sjónvarpsútsendingar frá Alþingi þegar ég reiddi upp höndina til þess að slá í bjölluna. Bað hann mig guðs blessaðan að vera aðeins mjúkhentari, enda væri heilsa sín og eflaust margra annarra í veði.

Því ætla ég hér og nú að vinna það áramótaheit að fara mjúkum höndum um bjölluna; dangla bara létt í hana en slá því aðeins af afli þegar allt annað þryti."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.