Innlent

Orka náttúrunnar tekur við rekstri virkjana OR

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hellsiheiðavirkjun verður nú rekinn undir Orku náttúrunnar.
Hellsiheiðavirkjun verður nú rekinn undir Orku náttúrunnar. mynd / vilhelm
Nú um áramót tekur Orka náttúrunnar við rekstri virkjana Orkuveitu Reykjavíkur og allri raforkusölu en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur.

Fyrirtækið mun vera opinbert hlutafélag alfarið í eigu Orkuveitunnar og er sett á fót til að uppfylla ákvæði raforkulaga um aðskilnað sérleyfis- og samkeppnistarfsemi. Viðskiptavinir Orku náttúrunnar eru um 75.000 talsins og eru viðskiptin misjafnlega umfangsmikil, allt frá heimilum til álvers. Framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar verður Páll Erland.

Veituþjónustan – vatnsveita, hitaveita, fráveita og dreifing rafmagnsins – verður áfram rekin undir merki Orkuveitu Reykjavíkur. Við aðskilnaðinn þurfti að breyta lögum um Orkuveitu Reykjavíkur. Ný lög voru samþykkt á Alþingi 19. desember síðastliðinn og endurspegla þau líka breyttar áherslur eigenda fyrirtækisins, stjórnar og stjórnenda; að leggja höfuðáherslu á hið hefðbundna hlutverk veitnanna.

Orka náttúrunnar verður næststærsti raforkuframleiðandi á landinu og það sölufyrirtæki rafmagns sem hefur flesta viðskiptavini. Þær virkjanir sem Orka náttúrunnar á og rekur eru jarðvarmavirkjanirnar á Hellisheiði og á Nesjavöllum og tvær vatnsaflsvirkjanir; Andakílsárvirkjun og Elliðaárstöð. Í jarðvarmavirkjununum er jafnframt framleiddur rúmlega helmingur þess hitaveituvatns, sem nýttur er á Höfuðborgarsvæðinu.

„Undirbúningur að uppskiptingu Orkuveitunnar hefur verið flókið og spennandi verkefni. Nú er komið að henni og það er áríðandi að markmið hennar um aukna samkeppni skili almenningi ábata,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, í tilkynningunni.

„Það hefur tekist að snúa mörgu til betri vegar hjá Orkuveitunni á undanförnum misserum, ekki síst fjárhag fyrirtækisins. Með skýrri stefnu, sem mótuð hefur verið í samstarfi eigenda, stjórnar, stjórnenda og starfsfólks, göngum við öruggari til allra okkar verka, þar á meðal þeirra sem uppskiptingunni fylgja.“

„Orkuveitan er þess vegna ágætlega í stakk búin að skilja að sérleyfis- og samkeppnihluta starfseminnar. Í aðskilnaðinum felast líka tækifæri og okkar Orkuveitufólks – þó sérstaklega starfsfólks Orku náttúrunnar – bíður að grípa þau, viðskiptavinum til hagsbóta.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×