Innlent

Tugir áramótabrenna um allt land

Áramótabrenna
Áramótabrenna
Á fjórða tug áramótabrenna hafa verið skipulagðar um land allt á gamlárskvöld, flestar brennur eru haldnar á höfuðborgarsvæðinu. Auk bálkastarins er víða boðið upp á flugeldasýningar og fjöldasöng. Fréttablaðið tók saman upplýsingar um brennur víða um land, en listinn er þó ekki tæmandi.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins kemur að undirbúningi áramótabrenna á svæðinu. "Við skoðum alla þessa staði og höfum fund með forsvarsmönnum og veðurstofunni. Þá höldum við utan um skrá yfir staðina og viðbragðsáætlun ef eitthvað kemur upp," segir Birgir Finnsson varaslökkviliðsstjóri. Hann varar brennugesti við að fara of nálægt eldinum og hvetur þá til að skilja skoteldana eftir heima. "Það er um að gera að njóta bara brennunnar og láta aðra um skemmtiatriðin," segir Birgir.

Í Þingahverfi í Kópavogi standa íbúar fimmta árið í röð að eigin áramótabrennu og taka þeir Árni Johnsen og Kristján Jóhannsson lagið líkt og fyrri ár. Á Seltjarnarnesi mun Hermann Arason tónlistarmaður leiða fjöldasöng. Í Grímsey verður brennan sérstaklega stór og vegleg þetta árið, þar sem til stendur að brenna gamalt þak, en skipt var um þak á sundlaug bæjarins síðastliðið sumar.

Veðurspá fyrir höfuðborgarsvæðið lítur vel út. "Slökkviliðið hefur verið í sambandi við veðurstofuna í dag og þetta lítur þokkalega út," segir Birgir. Á Akureyri var útlitið ekki gott í gærdag en vonast var eftir betri tíð í dag, "Það ætti að vera hægur vindur á dag svo þetta lítur ágætlega út," segir Björn Heiðar Sigurbjörnsson, aðstoðarslökkviliðsstjóri á Akureyri.

Leiðrétting: Brennan í Skerjafirði hefst klukkan 21 en ekki 20:30 eins og sést hér á skýringamyndinni sem fylgir fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×