Innlent

Bætir í vind á norðvestanverðu landinu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ákjósanlegar aðstæður fyrir flugelda á höfuðborgarsvæðinu í kvöld.
Ákjósanlegar aðstæður fyrir flugelda á höfuðborgarsvæðinu í kvöld.
Veðurstofan spáir því að bæti eigi í vind eftir hádegi í dag og gerir ráð fyrir 13-20 metra á sekúndu á  norðvestanverðu landinu og við suðausturströndina í kvöld.

Á öðrum landshlutum verður hægara veður í dag og í kvöld og ákjósanlegar aðstæður fyrir flugelda.

Á morgun, nýársdag, mun vera töluvert hvassviðri sérstaklega á Vestfjörðum en snjókoma og slydda verður á norðanverðu landinu.

Smámsaman vaxandi vindur á landinu og með vægri leysingu á láglendi sem aftur veldur flughálku á ýmsum vegum um land allt þar sem þjappaður snjór og klaki er fyrir.

Með stormi suðaustanlands má gera ráð fyrir sviptivindum og hviðum 30-35 m/s í Öræfasveit frá því snemma í kvöld og fram á morgundaginn.

Hér að neðan má sjá fréttatilkynningu frá Veðurstofu Íslands:

Viðvörun: Búist er við stormi (vindhraða yfir 20 m/s) við SA-ströndina í kvöld og nótt. Einnig er búist við stormi eftir hádegi á morgun norðvestan- og vestanlands og á miðhálendinu.

Athugasemdir veðurfræðings: Búast má við snörpum vindhviðum (allt að 40 m/s) í Mýrdal og Öræfasveit í kvöld og nótt. Einnig má búast við snörpum vindhviðum norðvestan- og vestanlands í nótt og á morgun og á miðhálendinu.

Brennu- og flugeldaveður í kvöld:

NA-lægur vindur yfir landinu, hvasst á Vestfjörðum, við Breiðafjörð, á annesjum norðanlands og með suðausturströndinni. Annars hægari vindur. Þeir þéttbýlisstaðir sem eru í góðu skjóli fyrir NA áttinni ættu að fá sæmilegasta skotveður.

Á höfuðborgarsvæðinu:  A og NA 3-10 m/s um kl 20 í kvöld, hvassast í efri byggðum og í Mosfellsdalnum. Hvessir heldur er líður á kvöldið, 8-15 um kl. 23, hvassast á Kjalarnesi. Úrkomulaust en skýjað að mestu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×