Innlent

Segir að reynt hafi verið koma á hann höggi

Höskuldur Kári Schram skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir augljóst að reynt hafi verið að koma á hann höggi með því að leka út röngum fullyrðingum um að hann hafi fengið tæplega sex milljarða lán frá Glitni fyrir bankahrun.

Samtökin Associated Whistle-Blowing Press birtu á heimasíðu sinni á sunnudag gögn sem tengnast starfsemi Glitnis fyrir hrun. Samtökin fullyrtu ranglega að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra hefði fengið tæplega 6 milljarða lán hjá bankanum en ekki 174 milljónir eins og fram kom í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Samtökin drógu fullyrðingu sína til baka í gær.

Bjarni Benediktsson segir augljóst að reynt hafi verið að koma á hann höggi.

„Ég furða mig á því að menn geti tekið upplýsingar með þessum hætti og mistúlkað þær svona heiftarlega. Það hlýtur að búa einhver ásetningur að baki um að reyna að koma höggi á menn vegna þess að þarna fóru menn svo rosalega fram úr sér að ég hef aldrei séð annað eins,“ segir Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×