Innlent

Búið að ákveða að ég gæti ekki gert hlutina

Hrund Þórsdóttir skrifar
Vetrarhæfileikarnir 2013 fóru fram í Borgarleikhúsinu í morgun, við setningu átaks sem ætlað er að auka vitund almennings um styrkleika fatlaðs fólks. Félagsmenn hagsmunasamtaka mættu í Borgarleikhúsið til að hleypa átakinu af stokkunum, en þau standa að því ásamt Réttindavakt Velferðarráðuneytisins. Fram kom að fatlaðir hafa margt að gefa, rétt eins og allir aðrir. „Við þurfum bara að koma auga á það og við vonumst til þess að þetta átak sem við erum að fara út í nái að draga úr staðalímyndum um fatlað fólk því fatlað fólk er hæfileikabúnt eins og annað fólk og fyrst og fremst fólk þegar upp er staðið,“ segir Halldór Gunnarsson, starfsmaður Réttindavaktar Velferðarráðuneytisins.

Fjórir listamenn sýndu færni sína á Vetrarhæfileikunum. Enginn, eða raunar allir, voru sigurvegarar í þessari óvenjulegu hæfileikakeppni og þriggja manna dómnefnd sýndi ánægju sína í verki, eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði.

Þá voru sex nýjar sjónvarpsauglýsingar frumsýndar. Uppistandarinn Bergvin Oddsson, eða Beggi  blindi eins og hann er kallaður, leikur í einni þeirra og hann segir hræðslu ríkja við að hleypa fötluðum inn í atvinnulífið og jafnvel í skóla á framhalds- og háskólastigi. „Svona átak eins og við erum að byrja með í dag verður vonandi til þess að hvetja fatlaða til að stíga fram og vera ófemnir. Vonandi verður þetta líka til vitundarvakningar meðal almennings og vekur kannski atvinnurekendur til umhugsunar um að gefa fötluðum einstaklingum tækifæri til að vinna,“ segir Beggi.

Hann hefur reynt þessa hræðslu á eigin skinni. „Þegar ég var unglingur sóttist ég eftir sumarvinnu á leikskóla í mínum heimabæ í Vestmannaeyjum, en þá sagði atvinnumálafulltrúi fatlaðra: „Nei, þú getur það ekki  Bergvin minn, þú gætir labbað á börnin“. Þarna var búið að ákveða að ég gæti ekki gert hlutina í staðinn fyrir að prófa það,“ segir Beggi.

Þess má geta að hann hafði á sínum tíma sjálfur samband við leikskólastjóra sem gaf honum tækifæri og starf hans á leikskólanum gekk vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×