Innlent

Ráðherrabílstjóri Sigmundar Davíðs spilar á bassa

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Það stefnir í mikið fjör í Hveragerði í kvöld því þar verður svokallað Sölvaball haldið tuttugasta árið í röð á vegum Hljómlistafélags Hveragerðis. Allur ágóði ballsins rennur til góðgerðarmála en hljómlistarfélagið hefur safnað um sex milljónum króna á síðustu fimm böllum.

Sölvi Ragnarsson er maðurinn sem allt snýst um í Hveragerði fyrir kvöldið. Hann kom með þá bráðsnjöllu hugmynd fyrir 20 árum að koma uppi balli á milli jóla- og nýárs þar sem ungir og efnilegir tónlistarmenn í Hveragerði gætu látið ljós sitt skína.

Bandið sitt kallar hann Sölvabandið en það er skipað tónlistarmönnum úr Hveragerði og þeir eiga það líka sameiginlegt að vera allir í stjórn Hljómlistarfélags Hveragerðis.

„Við erum að halda Sölvakvöldið í 20. skiptið á Hótel Örk og það verður mikið fjör og mikið gaman. Þetta er kannski árshátíð tónlistarmanna í Hveragerði.“

Allur ágóði af ballinu rennur til góðgerðarmála í Hveragerði en alls hafa safnast á sjöttu milljón króna á síðustu fimm böllum.

„Það er svo gott fólk hérna held og jarðvegurinn hérna er svo frjór. Þetta er listamannabær og hefur alltaf verið.“

Hverju lofið þið í kvöld, hverskonar skemmtun verður þetta? 

„Rosalegu fjöri og skemmtilegheitum. Það verður mjög létt yfir þessu og allir fá eitthvað við sitt hæfi. Þarna koma fram bönd með svona músík sem allir ættu að hafa gaman að.“

Sérstaka athygli vekur að ráðherrabílstjóri Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, Sigurður Egilsson spilar á bassa í Sölvabandinu.

„Hann er mjög góður bassaleikari og ekki má gleyma því að hann spilar líka með hljómsveitinni Pass frá Hveragerði. Hann spilar mikið og er góður.“

Haldið þið að hann sé að kenna Sigmundi Davíð eitthvað á bassa í frístundum? 

„Vonandi er hann að kenna honum allavega eitthvað“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×