Innlent

Einar Kárason setur Arion banka í siðferðisklemmu

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Einar Kárason bíður viðbragða frá Arion banka.
Einar Kárason bíður viðbragða frá Arion banka.
Einar Kárason hefur gert Arion banka tilboð.

Rithöfundurinn segir á Facebook-síðu sinni að hann þurfi að greiða Arion banka peninga mánaðarlega, vegna lána, vísakorts og fleira.

Einu sinni á ári, í desember, eigi Arion banki samkvæmt samningi að greiða Einari eitthvað, það er endurgreiðslu (5 krónur af hverjum 1.000 krónum) af verslun við tiltekna aðila.

Í stað þessa að millifæra þessa fjárhæð á Einar býður bankinn honum að láta þessar krónur renna heldur til Mæðrastyrksnefndar.

Einar hefur því gert bankanum tilboð sem hann telur sanngjarnt.

„Hann [bankinn] borgar mér ekki það sem hann á að greiða nú í des heldur lætur það renna til mæðrastyrksnefndar. Á móti því borga ég honum ekki það sem ég á að greiða um mánaðarmótin heldur læt þá upphæð heldur til mæðrastyrksnefndar.

Hafni bankinn þessari fullkomlega sjálfsögðu tillögu er hann augljóslega kominn í alvarlega siðferðisklemmu, treystir sér ekki til að sýna það örlæti sem hann ætlast til af öðrum,“ segir Einar.

Einar segist að lokum ætla að leyfa fólki að fylgjast með framvindunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×